Nýjasta útgága af lögum félagsins var samþykkt á aðalfundi 2010.
1. grein
Félagið heitir Félag landeigenda í Vaðnesi ( FLV ) kt. 510294-2469. Heimili þess og varnarþing er í Árnessýslu.
2.grein
Félagið starfar í samræmi við 17. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Félagssvæðið er í landi Vaðness í Grímsnesi. Félagið er aðili að Landssambandi sumarhúsaeigenda fyrir hönd félagsmanna sinna.
3. grein
Félagsmenn eru allir sem hafa umráð yfir lóð undir frístundahús í landi Vaðness. Sama gildir um umráðamenn lóða án húss. Eigendaskipti skal tilkynna stjórn félagsins.
4. grein
Stjórn félagsins er heimilt að skipa sérstakar nefndir ef henni þykir ástæða til, og beri hún ábyrgð á þeim. Jafnan skulu vera starfandi veganefndir innan félagsins.
5. grein
Tilgangur félagsins er að:
a. gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum vegna mála sem snerta lóðarhafa og frístundabyggðina,
b. vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunum félagsmanna á félagssvæðinu,
c. stuðla að og fylgjast með góðri umgengi og náttúruvernd á félagssvæðinu,
d. vinna að auknu öryggi á félagssvæðinu,
e. viðhalda akvegum og göngustígum auk umhirðu um sameiginleg svæði í frístundabyggðinni.
6. grein
Aðalfundur skal haldinn fyrir 10. júní ár hvert og skal hann boðaður skriflega með viku fyrirvara til félagsmanna. Boða má fund með tölvubréfi á það póstfang sem forráðamaður hefur látið stjórn í té og telst það fullnægjandi svo fremi að ekki komi boð um að sending hafi ekki komið til skila. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
Dagskrá fundarins skal vera sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar
2. Framlagning ársreiknings
3. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning
4. Lagabreytingar
5. Skýrslur nefnda
6. Ákvörðun um árgjald
7. Kosning stjórnar (sjá 7.grein)
8. Kosning endurskoðenda
9. Önnur mál
Öllum samþykktum sem gerðar eru á aðalfundi er skylt að hlýta og skal stjórnin framfylgja því að svo sé gert. Til að lagabreytingar öðlist gildi þarf 2/3 hluta atkvæða aðalfundar.
7. grein
Stjórn félagsins skipa fimm menn, kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður skal kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem honum þykir þörf á. Stjórnarmenn geta óskað eftir fundi og skal hann þá haldinn innan 7 daga.
8. grein
Stjórn félagsins kveður til félagsfundar með viku fyrirvara, þegar hún telur þess þörf, eða þegar a.m.k. þriðjungur félagsmanna óska þess skriflega. Félagsfundir skulu boðaðir á sama hátt og aðalfundir. Fundarefni skal tilgreint ótvírætt í fundarboði.
Einfaldur meirihluti fundarmanna ræður ákvörðunum. Hverri þinglýstri landareign fylgir eitt atkvæði. Félagsmanni er heimilt að senda umboðsmann fyrir sig á fundi félagsins. Umboð skal vera skriflegt. Skrá skal í sérstaka gerðabók stutt yfirlit yfir allt það sem gerist á félagsfundum. Fundargerðir skulu undirritaðar af formanni félagsins og fundarritara. Fundargerðirnar eru síðan sönnun þess sem fram hefur farið á fundinum.
9. grein
Kostnaður við framkvæmdir skiptist að jöfnu og ræðst af fjölda lóða undir frístundahús á félagssvæðinu. Umráðamanni lóðar undir frístundahús er skylt að greiða sinn hluta kostnaðar sem hlýst af ákvörðun sem löglega hefur verið tekin. Greiði félagsmaður ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði og í félagssjóð á gjalddaga eignast félagið lögveð í eign hans á félagssvæðinu, til tryggingar kröfunni. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta. Lögveðinu skal fylgja eftir með lögsókn eða því lýst við nauðungasölu innan árs frá stofnun þess. Viðurkenning eigenda utan réttar nægir ekki til að rjúfa fyrningu.
10. grein
Ef lögð er fram á fundi félagsins eða nefnda þess, tillaga samkvæmt auglýstri dagskrá í fundarboði um að ráðast í framkvæmdir eða stofna til kostnaðar sem leiða til útgjalda sem eru umfram venjulegan rekstrarkostnað félagsins skal sú tillaga talin samþykkt hljóti hún samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða og minnst þriðjungur viðkomandi félagsmanna sækir fundinn.
11. grein
Stjórn félagsins skal sjá um að bókhald sé fært yfir fjármál og efnahag félagsins í samræmi við lög og venjur. Gjalddagi árgjalds skv. 6. gr. skal vera 15. júní og eindagi 15 dögum síðar. Gjalddagi framkvæmdagjalds sem ákvarðað er skv. 9. gr. skal vera tilgreint við samþykkt þess. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
12. grein
Hætti félagið störfum skal almennur fundur félagsmanna, sem slítur félaginu, taka ákvörðun um ráðstöfun á eignum sem félagið kann að eiga, enda skal þess getið sérstaklega í fundarboði, sem sent er með ábyrgðarpósti.
13. grein
Lögum þessum verður einungis breytt á aðalfundi enda samþykki 2/3 hlutar fundarmanna breytingarnar. Skal þess getið í fundarboði að lagabreytingar verði á dagskrá.
14. grein
Lög þessi öðlast gildi við samþykkt þeirra.
Samþykkt á aðalfundi 5. júní 2010
Tengill á Lög FLV
Hér að neðan er tengill á samþykktir félagsins.