Borg, 22. desember 2021
Kæru stjórnir frístundahúsafélaga
Með þessu bréfi viljum við vekja athygli á nokkrum hlutum sem gætu skipt ykkur og félagsmenn ykkar máli. Þið mættuð því gjarnan koma þeim upplýsingum sem hér koma fram áfram til félagsmanna ykkar.
Inneignarkort
Töluverður fjöldi af inneignarkortum hefur verið afhentur á árinu og hefur notkun þeirra gengið vel. Inneignin á kortunum uppfærist sjálfkrafa núna um áramótin og byrja því allir nýtt ár með 4,5 m3 inneign.
Enn eiga einhverjir eftir að sækja sín kort og minnum við á að hægt er að nálgast kortin á skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma;
Mánudaga – fimmtudaga: 9:00 – 15:00 Föstudaga: 9:00 – 12:00
Grenndarstöðvar
Rekstur grenndarstöðvanna hefur gengið vel á árinu og hefur notkun þeirra sýnt að mikill áhugi virðist vera hjá frístundahúsaeigendum að skila sorpinu af sér á ábyrgan hátt. Flokkunin hefur heilt yfir verið góð og þau efni sem fara til endurvinnslu verið nokkuð hrein. Þess má geta að flokkunarhlutfall heimilissorps í sveitarfélaginu hefur aukist um 21% frá árinu 2019, en þann árangur má að miklu leyti þakka grenndarstöðvunum. Þó virðist enn vera að fara töluvert af endurvinnanlegum úrgangi í almenna sorpið sem nauðsynlegt er að koma í réttan farveg.
Á haustdögum tók gildi samningur við nýjan þjónustuaðila varðandi sorphirðu í sveitarfélaginu, en samhliða því fengum við nýja gáma. Einnig bættust við tvær nýjar grenndarstöðvar; á Kringlu í Grímsnesi og við Nesjavelli í Efri-Grafningi. Litirnir á gámunum voru uppfærðir í samræmi við nýjar flokkunarleiðbeiningar frá Fenúr sem koma til með að gilda um allt land. Þá voru opin á pappírs- og pappagámunum stækkuð frá því sem fyrir var, en við vekjum sérstaka athygli á því að þrátt fyrir að opin séu orðin stærri er ennþá nauðsynlegt að fletja pappann út til þess að plássið í gámunum nýtist sem best. Einnig hefur verið eitthvað um það að stórum pokum með blönduðum úrgangi sé hent í pappagámana, en í bláu gámana má einungis fara hreinn pappír og pappi.
Fasteignagjöld
Árið 2022 verður veittur 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignaskatti til fasteignaeigenda sem staðgreiða álagninguna fyrir 5. mars 2022.
Athygli er vakin á því að ekki verður hægt að staðgreiða fasteignaskattinn nema milli 21. febrúar og 5. mars 2022, en upplýsingar um álagningu liggja ekki fyrir fyrr en seinnipartinn í febrúar.
Ef þú ætlar að staðgreiða til að fá afsláttinn þá getur þú sent tölvupóst á leifa@gogg.is með upplýsingum um kennitölu greiðanda og heiti fasteignar og verður þá haft samband við þig upp úr 21. febrúar með nánari upplýsingar.
Símahlið
Í Grímsnes- og Grafningshreppi eru rúmlega 3.000 frístundahús. Þau eru flest afmörkuð í frístundahúsahverfi og oft á tíðum er hvert hverfi annað hvort með lyklahlið eða símahlið. Samhliða því eru sumir einstaklingar einnig með læst hlið að sínum frístundahúsum.
Sveitarstjórn vill beina þeim tilmælum til frístundahúsaeigenda og félaga sem hafa hlið að sínum fasteignum að til að hægt sé að þjónusta viðkomandi fasteignir þurfa ákveðnir þjónustuaðilar á vegum sveitarfélagsins að hafa aðgang að hliðunum. Ef lyklahlið er til staðar er hægt að fá aðgang að lyklakerfi sveitarfélagsins og þá hafa þjónustuaðilar sveitarfélagsins master-lykil. Ef símahlið er til staðar þarf að gefa ákveðnum númerum aðgang að símahliðinu.
Vinsamlegast tryggið að aðgangur sé til fyrir eftirfarandi símanúmer:
867 0408 – Vaktsími Grímsnes- og Grafningshrepps (Vatns- og hitaveita) 840 3957 – Seyrusíminn
832 5105 – Þjónustufulltrúi seyruverkefnis
892 2239 – Davíð Sigurðsson – Byggingarfulltrúi
899 0255 – Stefán Short – Aðstoðarmaður Byggingarfulltrúa
832 4959 – Lilja Ómarsdóttir – Aðstoðarmaður Byggingarfulltrúa
Sendið okkur endilega símanúmer og heiti fyrir viðkomandi hlið á gogg@gogg.is.
Við vonum að árið 2021 hafi verið ykkur ánægjulegt og óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.