Sveitarstjórn óskar ykkur farsældar á nýju ári og þakkar fyrir samskiptin á liðnu ári
Hér eru nokkrir hagnýtir punktar er varða úrgangsmál í sveitarfélaginu og vonum við að þið deilið þessum upplýsingum eins víða og hægt er.
Inneignarkort á Gámastöðinni Seyðishólum
Allir fasteignaeigendur í Grímsnes- og Grafningshreppi sem greiða sorpeyðingargjöld fá afhent inneignarkort á Gámastöðina Seyðishólum.
Inneignin á inneignarkortinu fyrir frístundahús árið 2021 verður fyrir allt að 4,5 rúmmetra af gjaldskyldum úrgangi.
Þetta inneignarkort er hugsað sem framtíðareign fyrir hverja fasteign og verður inneignarstaðan uppfærð um hver áramót. Inneignir munu ekki færast milli ára.
Kortið virkar þannig að þegar komið er á gámasvæðið er inneignarkortið skannað og starfsmaður á gámastöðinni tekur út af kortinu í samræmi við það magn af úrgangi sem verið er að losa sig við.
Glatist inneignarkort getur fasteignaeigandi nálgast nýtt kort á skrifstofu sveitarfélagsins gegn gjaldi kr. 5.000,-
Afhending inneignarkorta
Á eftirtöldum helgum verður fulltrúi frá sveitarfélaginu staðsettur í anddyri Félagsheimilisins Borg á Borg til að afhenda inneignarkort fyrir gámastöðina Seyðishólum:
Laugardaginn 23. janúar
Milli 10:00 – 16:00
Sunnudaginn 24. janúar
Milli 10:00 – 16:00
Laugardaginn 30. janúar
Milli 10:00 – 16:00
Sunnudaginn 31. janúar
Milli 10:00 – 16:00
Laugardaginn 13. febrúar
Milli 10:00 – 16:00
Sunnudaginn 14. febrúar
Milli 10:00 – 16:00
Skrifstofa sveitarfélagsins er lokuð og verður því frá og með 26. janúar til og með 5. febrúar hægt að nálgast inneignarkort í anddyri Félagsheimilisins Borg milli 13:00 -15:00 mánudaga, þriðjudag og fimmtudaga og 9:00-12:00 á miðvikudögum og föstudögum.
Við munum auglýsa síðar afhendingartíma eftir 5. febrúar.
Vert er að benda á að grímuskylda verður við afhendingu inneignarkortanna og biðjum við alla um að vera með grímur þegar nálgast á inneignarkortin.
Vinsamlega athugið að hver fasteignaeigandi verður að nálgast inneignarkort fyrir sína fasteign en viðkomandi þarf að kvitta fyrir móttöku á kortinu og því verður ekki hægt að senda inneignarkortin í bréfpósti til fasteignaeigenda.
Skjalið sem þarf að fylla út og kvitta á til að fá inneignarkortið afhent er aðgengilegt hér, en hægt er að flýta fyrir afhendingu með því að koma með skjalið útfyllt. Annars verða líka blöð á staðnum sem hægt verður að fylla út.
Lífræna tunnan
Til þess að hjálpa fólki að komast af stað í flokkun á lífrænum úrgangi gaf sveitarfélagið, eins og áður hefur komið fram í öðrum tölvupóstum, frístundahúsaeigendum sérstök söfnunarílát fyrir úrganginn. Um er að ræða græna 8 lítra körfu með loki sem hentar einstaklega vel að geyma í eldhúsinu.
Með körfunum fylgir ein rúlla af maíspokum, en lífræna úrganginn má einungis setja í jarðgeranlega poka úr maís eða pappa.
Pokar eins og þeir sem fylgja með körfunni munu svo koma til með að fást í Versluninni Borg á góðum kjörum. Ef einhverjir eiga enn eftir að fá svona körfur þá verður hægt að nálgast tunnur þegar inneignarkortin verða sótt.
Grenndarstöðvar í stað gáma í hverfum
Nú hafa allir heimilissorpsgámar verið fjarlægðir úr frístundabyggðum og viljum við því benda ykkur á að grenndarstöðvarnar í Grímsnes- og Grafningshreppi eru nú orðnar 6 talsins:
Hjá Skátunum á Úlfljótsvatni – Til móts við bæinn Ásgarð – í Hraunborgum – Við Vaðnesveg – Við Torfastaði – Við Seyðishóla
Hér má sjá á korti hvar grenndarstöðvarnar eru staðsettar:

Á hverri grenndarstöð er hægt að henda gjaldfrjálst eftirtöldum flokkum:
Plasti – pappa – málmum – gleri – lífrænum úrgangi – almennu heimilissorpi – skilaskyldum umbúðum.
Annað skal fara með á gámastöðina Seyðishólum.
Jafnframt vinnur sveitarfélagið að því að setja upp grenndarstöð annars vegar í austurhluta sveitarfélagsins og í efri Grafningi og má búast við að þær verði komnar upp fljótlega.
Flokkun og endurvinnsla
Á facebook síðunni: Gámastöðin Seyðishólum má finna ýmsa hagnýta og fróðlega punkta um flokkun en þar verða einnig setta inn upplýsingar um grenndarstöðvarnar.